Quantcast
Channel: Heilsan – Hun.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1210

Hefur þú ruslað?

$
0
0
dum

Því miður er fátækt til staðar í íslensku samfélagi og er viðfangsefni sem flestir reyna að forðast að ræða. Já þetta óþægilegt umræðuefni og margir velja að líta undan í stað þess að ræða málin og vinna á vandamálinu.

Það er orðið þekkt að einstaklingar leiti í gáma verslana í leit að mat. Þessi staðreynd er virkilega sorgleg að mínu mati. Ekki óska ég neinum þeirra aðstæðna að grípa þurfi í sorpgáma til að fá matarbita. Þetta á ekki að líðast á Íslandi og því nauðsynlegt að hafa málin upp á borðinu og hjálpa þeim sem þurfa til sjálfshjálpar.

En ég lenti á spjalli við tvo kunningja nýverið þar sem annar spurði upp úr þurru hvort við hefðum ruslað? Ég áttaði mig ekki á spurningunni og bað um útskýringu, en sá sem ekki spurði svaraði játandi. Það er víst fólk þarna úti sem hefur gaman af því að rusla. Skellir á sig bakpoka og kastast á milli gáma gramsandi eftir mat. Sumir fara í hópum og safna í matinn. Nemendur stunda þetta til að spara pening þar sem námslánin duga ekki, var meðal annars rökstuðningur sem ég fékk. Já já ég geri þetta oft og stundum hittir maður aðra og þá er bara spjallað og gramsað. Hjá sumum er þetta bara skemmtilegur lífstíll í bland við spennu, sagði sá sem stundað hefur að rusla.

Það er víst bannað með lögum að gramsa í ruslagámum verslana og þess vegna þarf að kastast bakvið gámana eða næsta grindverk ef löggan á leið framhjá. Á þessum tímapunkti í samtalinu var ég orðinn svo hissa og spáði í hverju er ég eiginlega lentur ? Ég hef skilning á því að þeir sem búa við fátækt grípi í neyð sinni að rusla en þegar þetta er orðin eins og sérstök útgáfa á saumaklúbbum þá er ég ekki alveg með skilninginn á réttum stað.

Sá sem í upphafi spurði var mjög áhugasamur þar sem nokkrir vinir hans stunda þessa iðju. Það er víst nóg að fá í þessum gámum, en verslanir hafa verið að koma sér upp eftirlitsmyndavélum þar sem þetta flokkast sem þjófnaður. Það sem kom mér mest á óvart var að heyra að allt frá jarðaberjaöskjum upp i lambalæri sé á matseðli gámanna.

Að samtalinu loknu var ég í raun ringlaður um afstöðu mína,

eru þeir sem eiga fyrir mat farnir að gramsa og taka kannski frá þeim sem hafa ekkert á milli handanna? Eða er þetta orðin raunstaða námsmanna á Íslandi ?

En svo leitaði hugurinn í þá bláköldu staðreynd að þrátt fyrir að það ríki fátækt í landinu og tala nú ekki um í heiminum öllum, er hent fjölda tonna í viku hverri af matvælum sem án nokkurs skaða má leggja sér til munns. Bakarí henda víst miklu magni af góðgæti á degi hverjum án þess að nokkuð af því sé gefið. Það er víst bannað með lögum skilst mér. Þetta er að mínu mati sorglegt að heyra. Hvar er samfélagsleg ábyrgð? Hvað veldur því að ekki sé leyft þeim að njóta sem mest þurfa? Við höfum frá hruni séð umfjallanir í fjölmiðlum af fjölskyldum þar sem börn svelta og fyrir skemmstu var viðtal við starfsmann á heimili sem tekur til sín börn í skammtímavistun og eru banhungruð þegar þau koma. Við hin sem eigum til hnífs og skeiðar nennum sjaldan að snæða afganga gærdagsins og látum þá vaða í ruslatunnuna án þess að hugsa hversu lánsöm við erum.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1210