
Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ekki úr vegi að eiga smávegis gæðastund með börnunum sínum og föndra með þeim páskaskraut. Auðvelt er að lita egg sem hægt er að nota til skrauts á ýmsa vegu yfir páskahátíðina.
Það sem þarf til verksins er:
Hrá egg eða egg sem búið er að blása innihaldið úr.
Mikið af laukhýði – gefur brúnan lit
Slatta af Túrmerik – gefur gulan lit
1 lítil rauðrófa – gefur rauðbleikan lit
Lítil blóm eða lauf
Gamlan nælonsokk
Teygjur eða bómullarþráð
Skæri
Nál
Pottur

Ef þið viljið að eggin endist lengur þá er gott að blása þau annars eru þau sett hrá í pottinn. Lítil göt eru stungin á enda eggjanna með nál. Notið nálina líka til þess að stinga á eggjarauðuna, haldið egginu yfir skál og blásið öðru megin þannig að innvolsið leki út.

Klipptu bút af nælonskokknum og stingdu egginu inn í. Staðsettu blómin eða laufblöðin á eggið eins og þú villt að munstrið komi út og hnýttu fyrir með þræði eða teygju.

Ef laukhýði er notað þarf að sjóða það fyrst í um 10 mín, þá eru eggin sett út í og aftur látið sjóða í 5 mín. Rauðrófan og túrmerikið hafa sterkari lit og eru þau því sett út í pottinn um leið og eggin og látin sjóða í 5 mín. Auðvitað fer það eftir smekk hvers og eins hversu sterkum lit hann vill ná, þó má ekki sjóða eggin of lengi því þá getur munstrið dofnað.

Þegar eggin eru tilbúin eru þau veidd upp úr, sokkurinn tekinn af og þau látin þorna í eggjabakka. Ef eggin voru blásin þá er gott að láta þau þorna með minna gatið upp á við. Þegar eggin eru fullþornuð þá er hægt að bera á þau vax til að fá smá glans.
Góða skemmtun.